19.9.2008 | 23:59
Svar við klukki
Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina
- Sérkennslustjóri á leikskóla
- Forstöðumaður á sambýlum
- Verslunareigandi (örugglega minnsta búð sem til hefur verið á Ísó)
- Bensíntittur, kassadama í Vöruval, fiskvinnsla, bókasafn, bar, hótel, au-pair o.s.frv.
Fjórar bíómyndir sem ég held upp á
- Cinema paradiso
- Hárið
- Mamma mia
- My best friends wedding
Fjórir staðir sem ég hef búið á
- Ísafjörður (6 hús)
- Reykjavík
- Kópavogur
- Spánn (Sevilla og Torremolinos)
Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar
- What about Brian
- House
- Everwood
- Britains next top model
Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum
- Mexico
- ítalía (3 sinnum)
- Kaupmannahöfn (4 sinnum)
- London (2 sinnum)
- osfrv
Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg
- bb.is
- leikskólinn.is/eyrarskjól
- tmt.is
- veður.is (ekki kannski alveg daglega)
Fernt sem ég held upp á matarkyns
- ís
- kjúklingur
- fiskur
- allur matur í kringum jólin
Fjórar bækur sem ég hef lesið oft
- Endurfæðingin
- Mýrin
- Kæri herra Guð, þetta er hún Anna og Önnubók
- Kaldaljós
Fjórir bloggarar sem ég klukka
Ég held að það sé búið að klukka alla sem ég hefði klukkað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.9.2008 | 22:49
Vangaveltur
Var mikið að hugsa í kvöld við kvöldfréttirnar í ríkis (vá haldið ykkur nú, ég að hugsa)
Þetta snertir mig og truflar mig í hvert einasta sinn sem fjallað er um heyrnarlausa í fréttunum. Þá er fréttin textuð, bæði fréttin sjálf og öll viðtöl sem henni tengjast. Það er eins og sjónvarpið haldi að heyrnarlausir vilji ekki fylgjast með neinum fréttum nema þar sem heyrnarleysi kemur fram! Tæknin er greinilega til staðar. Af hverju er ekki hægt að texta allar fréttir og viðtöl? Fréttamenn lesa greinilega af textaskjá og langflest viðtöl tekin upp með einhverjum fyrirvara.
Svo mætti líka alveg tala íslensku inn á erlend innslög eða viðtöl í fréttum því að blindir lesa ekki textann. Ég veit að það er gert í útvarpinu en það er ekki það sama.
Fyrst ég er komin í þennan gírinn. Það sló mig alveg rosalega að sjá umfjöllun um ólympíumót fatlaðra í sjónvarpinu að áður en fólk með fötlun mætti á svæðið var skipt um lukkidýr. Ég sá ekki betur en að það væri einhver uppblásinn plastbangsi. Af hverju mega fatlaðir og ófatlaðir ekki hafa sama lukkudýr? Hvar var forseti vor við setninguna og ráðherra íþróttamála (ok hún var búin að fara tvær ferðir á leikana, hefði svo sem alveg getað sleppt annarri ferðinni og kíkt á setningu ólympíumóts fatlaðra). En hún Jóhanna okkar Sigurðar lét sig ekki vanta þarna og sýndi þessu frábæra íþróttafólki sinn stuðning. Þau eru líka að standa sig svona líka frábærlega. Þau er að ná sínum besta árangri og sumir meira að segja að bæta sig alveg helling. Af hverju er ekki blásið í lúðra og fjallað um þetta í stóru letri í mogganum, ekki bara á síðu með auðlesnu efni? Ég fylltist þvílíku stolti að fylgjast sem sundi ungrar konu sem er með einhverskonar hrönunarsjúkdóm (vona að ég fari rétt með) og hún var að synda sitt besta sund í tvö ár!!!! Náði einhver íþróttamannanna (fyrir utan handboltaliðið) þessum árangri á leikunum? Ég tek ofan fyrir íþróttafólkinu okkar á ólympíumóti fatlaðra og sendi þeim mínar allra bestu kveðjur.
Kv Sóley
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.9.2008 | 22:43
Haust
Þá er farið að hausta hjá okkur. Skólinn byrjaður og allt að skella á sem tilheyrir haustinu, sundæfingar, píanótímar og skvísan ætlar að prófa ballettinn aftur. BARA PRÓFA, sagði hún. Hún var komin með alveg nóg eftir tvo vetur og hundleið á ballettbúningnum. Vildi ekki sjá að vera í pilsi og því sem tilheyrir. Tók sér frí frá dansæfingum í einn vetur en er tilbúin að prófa aftur.
Ég hélt að þar sem hún er orðin lyfjalaus væri allt sem fylgir flogaveiki úr myndinni en það er ekki alveg svo gott. Það getur tekið líkamann langan tíma að losna alveg við lyfin og nú tekur við biðtími. Það þarf áfram að fylgjast með henni í sundi, ekki taka af henni augun, alla vega til áramóta, sagði læknirinn hennar og svo þarf alltaf að bregðast við ef hún fær hita eða þornar sem getur gerst í ælu- og niðurgangspestum. Þá getur flogaþröskuldurinn lækkað. En líkurnar eru samt ekki miklar. Það hefur gengið svo rosalega vel síðustu tvö ár að við erum nokkuð sannfærð að þetta er eitthvað sem hún er laus við. Hún er allavega útskrifuð frá taugalækninum sem hún hefur hitt á 6 mán fresti síðan hún var 17 mánaða.
Ég datt aðeins niður í hlaupunum í síðustu viku en fór svo aftur í gær. Ég var komin í 3 mín og hélt því í gær. Bæti svo bara við hægt og rólega og meðan ég næ að bæta við er ég bara glöð.
Eigið góðar stundir í hauströkkrinu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.8.2008 | 09:14
Og ég hleyp og hleyp
Hef farið annan hvern dag að hlaupa, bæði þessa viku og síðustu og gengið fínt. Finn ekkert til í hnjánum og hef bætt við tímann, þ.e. þær mínútur sem ég get hlaupið án þess að springa. Er komin upp í tvær og hálfa mínútu sem er bara fínt úr einni mín þegar ég byrjaði.
Fór að sjá Mamma mía á sunnudag og skemmti mér konunglega. Mikið svakalega langaði mig að syngja með. Kann að vísu ekki alveg öll lögin en megnið af viðlögunum. Vonandi tekst að redda sing a long sýningu hér. Ég veit að tvær góðar konur eru á fullu að smala fólki til að vera forsöngvarar. Ef af verður mæti ég sko galvösk og syng með af minni alkunnu, sérlega fögru rödd (hóst).
Heyrumst síðar.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.8.2008 | 21:57
Áfram í sama farið.
Ég er aldeilis hissa á þeim viðbrögðum sem þetta blogg hefur vakið. Ég ætla ekki að kalla yfir mig annað eins og halda mig því við ekki eins eldfim málefni og það að tjá skoðanir sínar er.
En ég hef hlaupið núna tvisvar þessa viku að gat bætt enn frekar við tímann. Bara gott mál.
Betri helmingurinn brá sér í borgina að sjá Aston Villa leik enda ekki á hverjum degi sem uppáhaldsliðið kemur til landsins.
Annað sem eru stór fréttir í þessari fjölskyldu. Dóttirin er laus við lyfin og því vonandi laus við flogaveikina líka. Mikil gleðistund hjá okkur. Hún man ekki eftir sér öðruvísi en að þurfa að taka lyf tvisvar á dag. Við lítum því veturinn framundan björtum augum og vonandi gerið þið það líka, sem slysist til að lesa mínar vangaveltur.
Bestu kveðjur í bili
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.8.2008 | 22:16
Komin heim, byrjað að vinna á morgun
Þá er sumarfríið búið þetta sumarið. Við komum heim í dag. Fórum á laugardagsmorgun á Ingjaldssand. Margrét Inga var voða hissa þegar við komum þangað, ,,þetta heitir Ingjaldssandur, hvar er svo allur sandurinn?" Hún sá örugglega eitthvað svipað Rauðasandi fyrir sér, sem ég gerði reyndar líka. Ég hafði aldrei komið á Ingjaldssand áður. Við vorum þar í rúman sólarhring. Vorum ekki alveg að finna okkur þar. Þvílíkt rosalegt rok sem var þar, það lá við að fortjaldið við fellihýsið fyki og ég svaf frekar lítið fyrir roki. Fengum gesti í heimsókn, Mamma og Olga kíktu á laugardeginum og Sigga og Gummi komu á sunnudegi. Gylfi og Gummi fóru á hestbak og þá var tilgangi ferðarinnar náð. Hulda systir og Gummi hennar komu líka og fljótlega eftir reiðtúrinn tókum við saman og fórum öll í bústaðinn sem Hulda og co voru með í láni. Og þessi líka rjómablíða sem var þar. Það var nú öllu skárra en rokið á sandinum. Lágum svo bara í sólbaði þar í dag.
STÓRFRÉTTIR. Ég fór að hlaupa aftur í dag. Tók þrjá mínútuspretti með göngu á milli og fann ekkert til í hnjánum. Kannski ég prófi að hlaupa annan hvern dag núna og labba hinn daginn í stað þess að hlaupa alla daga eins og ég var byrjuð að gera. Kannski þola hnéin það betur.
Heyrumst síðar
Sóley
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.8.2008 | 10:12
Happadrætti!
Það fer að verða spennandi að opna síðuna mína. Í hvert sinn sem ég fer inn er komið nýtt útlit. Ég veit að það voru einhverjar bilanir en ég held að undirliggjandi ástæða sé sú að vefstjórum fannst síðan mín svo ljót að þeir ákváðu fyrir sitt einsdæmi að benda mér á alla aðra möguleika en það útlit sem ég valdi. Ég ætla ekkert að breyta neinu strax, finnst ótrúlega spennandi að taka þátt í því happadrætti með útlit sem mér er boðið upp á.
En að öðru. Veðrið er bara GEGGJAÐ. Þetta fíla ég, hafa nógu mikinn hita, geta farið á stuttbuxum eða pilsi í bæinn og geta sleppt flís- eða lopapeysunni í nokkra daga. Ég er að ég held mesta kuldaskræfa sem sögur fara af. Alveg furðulegt að ég skuli velja að búa á Íslandi! En nokkrir svona dagar bjarga algjörlega sumrinu. Í gær fór ég með krakkana mína, systur mínar og þeirra börn og svo hana mömmu í lautarferð í Önundarfjörð. Við tíndum ber, borðuðum nesti og létum grillast í þvílíkri nátturufegurð. Ég er orðin gjörsamlega heilluð af þessum firði. Í dag er svo að kíkja í 1 árs afmæli litla kraftaverkadrengsins og bruna svo á Ingjaldssand. Við ætlum að prófa að vera þar um verslunarmannahelgi. Höfum alltaf verið í Leirufirði um þessa helgi en ætlum að prófa eitthvað nýtt núna. En í raun er það bara Gylfi sem verður að elta klárinn út um allt. Hestarnir eru sem sagt komnir á sandinn og þá verður Gylfi náttúrulega að fylgja með.
Ferðasagan úr síðustu Leirufjarðarferð!
Geggjað veður, sólbað, prjónað, sólbað, synt í sjónum, sólbað, grillað, sólbað, farið í netin, sólbað og svo etið drukkið og verið glöð. Og sólbað. Þetta er ferðin í hnotskurn. Ein og ein geitungastunga inn á milli en hvað er það á milli vina þegar hægt er að vera í SÓLBAÐI
Meira eftir helgi, en þá er ég líka búin í sumarfríi.
KV Sóley
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.7.2008 | 11:46
Lítið að gerast
Ég er lítið að skána í hnjánum. Hef verið að bera á mig Voltaren gel og gleypa íbúfen en bara við það að rölta hér innan hús finn ég til þannig að ég hef ekkert farið að hlaupa. En þetta hlýtur að fara að lagast.
Nú er verið að gera klárt fyrir Leirufjörð. Við förum á morgun og verðum í 6 daga. Fórum um daginn og vorum í 3 daga og það finnst hvorki krökkunum né okkur vera nógu langur tími. Maður verður að vera í nokkra daga til að finna hvað maður slakar rosalega vel á þarna. Ég kem alltaf endurnærð til baka. Það er ákveðinn sjarmi að þurfa að fara á bát (engir vegir), það er ekkert rafmagn og ekki símasamband. Mér finnst þetta æði. Hulda systir fer líka með fjölskylduna sína svo við verðum 9 manns í þessari ferð. Ég var að reyna að setja inn myndir úr gömlum ferðum í myndaalbúm en veit ekki hvernig það gengur.
Læt heyra frá mér þegar við komum til baka úr Jökulfjörðunum.
Kv Sóley
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.7.2008 | 18:54
Ó mig auma
Nú er vont í efni. Mín komin með bólgur í vöðvafestingar í báðum hnjám. Læknir vísar í sjúkraþjálfun, bólgueyðandi krem og hitahlífar á hnéin. Reyndur hlaupari sagði mér að éta bólgueyðandi lyf og hvíla í 3 - 4 daga. Og ég er bara rétt byrjuð að hlaupa! Kannski er þetta bara notkunarleysi og verður allt í lagi eftir nokkra daga. EN ég er ekki hætt. Verst er að geta lítið dansað á ballinu í kvöld Það verður þá bara meira drukkið og kjaftað.
Í dag fórum við í Önundarfjörðinn þar sem hestarnir eru og skelltum okkur á bak. Sigga og Gummi fóru með okkur og var Gummi að fara bak í frysta sinn síðan hann var 6 ára og Sigga hafði aldrei stigið á bak. En þau stóðu sig bara frábærlega, eins og þau hafi aldrei gert annað. Ég fór einn hring á honum Skugga okkar og hann er nú bara hinn ljúfasti, var reyndar eitthvað fótsár og ég fann svo til með honum að hann fékk aðallega að vera í grasinu. Gylfi er alveg forfallinn og vill fara að fjölga í hópnum. Var að skoða sölusíður fyrir hesta fram á nótt!
Læt þetta duga í bili.
KV Sóley
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.7.2008 | 13:16
í rigningu ég hleyp!
Ég er búin að fara næstum því á hverjum degi að hlaupa. Fór ekki fimmtudag og föstudag því þá fór ég í útilegu með Guðný Hönnu og dætrum og Huldu systur og hennar syni. Það var mjög fínt hjá okkur. Þegar ég kom heim á föstudagskvöld var Lilja Sólrún, skólasystir mín úr þroskaþjálfaskólanum komin í heimsókn með fjölskylduna. Mjög gamana að hitta þau. Hún og Halldór maðurinn hennar mættu með yngsta guttan, nokkurra vikna í brúðkaupið okkar í fyrra sumar.
En nú er haldið áfram að hlaupa. Í gær náðist merkur áfangi. Ég tók 1 1/2 mín sprett. VEI Ein góð með sig. En að geta bætt við er bara frábært. Og það rigndi sko á okkur Huldu í gær þegar við fórum út en við létum það ekki stoppa okkur. Síðustu daga hef ég tekið þrjá mínútu spretti með labbi á milli og svo í gær var fyrsti spretturinn ein og hálf og fyrir manneskju í engu formi er þetta bara sigur!
Ég fer svo seinnipartinn í dag með Siggu vinkonu, hef ekki farið með henni lengi.
Sjáumst síðar
Sóley
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar