Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Lítið að gerast

Ég er lítið að skána í hnjánum. Hef verið að bera á mig Voltaren gel og gleypa íbúfen en bara við það að rölta hér innan hús finn ég til þannig að ég hef ekkert farið að hlaupa. En þetta hlýtur að fara að lagast.

Nú er verið að gera klárt fyrir Leirufjörð. Við förum á morgun og verðum í 6 daga. Fórum um daginn og vorum í 3 daga og það finnst hvorki krökkunum né okkur vera nógu langur tími. Maður verður að vera í nokkra daga til að finna hvað maður slakar rosalega vel á þarna. Ég kem alltaf endurnærð til baka. Það er ákveðinn sjarmi að þurfa að fara á bát (engir vegir), það er ekkert rafmagn og ekki símasamband. Mér finnst þetta æði. Hulda systir fer líka með fjölskylduna sína svo við verðum 9 manns í þessari ferð. Ég var að reyna að setja inn myndir úr gömlum ferðum í myndaalbúm en veit ekki hvernig það gengur.

Læt heyra frá mér þegar við komum til baka úr Jökulfjörðunum.

Kv Sóley


Ó mig auma

CryingNú er vont í efni. Mín komin með bólgur í vöðvafestingar í báðum hnjám. Læknir vísar í sjúkraþjálfun, bólgueyðandi krem og hitahlífar á hnéin. Reyndur hlaupari sagði mér að éta bólgueyðandi lyf og hvíla í 3 - 4 daga. Og ég er bara rétt byrjuð að hlaupa! Kannski er þetta bara notkunarleysi og verður allt í lagi eftir nokkra daga. EN ég er ekki hætt. Verst er að geta lítið dansað á ballinu í kvöldShocking Það verður þá bara meira drukkið og kjaftað.

Í dag fórum við í Önundarfjörðinn þar sem hestarnir eru og skelltum okkur á bak. Sigga og Gummi fóru með okkur og var Gummi að fara bak í frysta sinn síðan hann var 6 ára og Sigga hafði aldrei stigið á bak. En þau stóðu sig bara frábærlega, eins og þau hafi aldrei gert annað. Ég fór einn hring á honum Skugga okkar og hann er nú bara hinn ljúfasti, var reyndar eitthvað fótsár og ég fann svo til með honum að hann fékk aðallega að vera í grasinu. Gylfi er alveg forfallinn og vill fara að fjölga í hópnum. Var að skoða sölusíður fyrir hesta fram á nótt!

Læt þetta duga í bili.

KV Sóley


í rigningu ég hleyp!

Ég er búin að fara næstum því á hverjum degi að hlaupa. Fór ekki fimmtudag og föstudag því þá fór ég í útilegu með Guðný Hönnu og dætrum og Huldu systur og hennar syni. Það var mjög fínt hjá okkur. Þegar ég kom heim á föstudagskvöld var Lilja Sólrún, skólasystir mín úr þroskaþjálfaskólanum komin í heimsókn með fjölskylduna. Mjög gamana að hitta þau. Hún og Halldór maðurinn hennar mættu með yngsta guttan, nokkurra vikna í brúðkaupið okkar í fyrra sumar.

En nú er haldið áfram að hlaupa. Í gær náðist merkur áfangi. Ég tók 1 1/2 mín sprett. VEI LoL Ein góð með sig. En að geta bætt við er bara frábært. Og það rigndi sko á okkur Huldu í gær þegar við fórum út en við létum það ekki stoppa okkur. Síðustu daga hef ég tekið þrjá mínútu spretti með labbi á milli og svo í gær var fyrsti spretturinn ein og hálf og fyrir manneskju í engu formi er þetta bara sigur!

Ég fer svo seinnipartinn í dag með Siggu vinkonu, hef ekki farið með henni lengi.

Sjáumst síðar

Sóley


Komin heim úr Leiró og byrjuð að hlaupa!

Við komum heim úr Leirufirðinum í gær og áttum við alveg frábæra daga þar. Sól og fínt veður allan tímann, rigndi eina nótt. Ekki var ég nú dugleg að labba, var meira í sólbaði og að prjóna.

En dag var svo haldið áfram með prógrammið. Sko, samkvæmt því átti ég að byrja í gær, labba í 4 mín og hlaupa í 2. En af því ég labbaði mjög lítið í Leiró ákvað ég að fara aðeins léttar að þessu. Labbaði í fjórar mín og hljóp í eina og þvílík átök. Ég var eins og hvalur á þurru landi, blés og másaði og stóð á öndinni. Ég var alveg að springa. Gerði þetta tvisvar sinnum og labbaði svo alla leiðina heim. En mikið rosalega leið mér vel þegar heim var komin og búið að teygja (og var farin að geta andað nokkuð eðlilegaBlush). Gylfi var með mér í dag og hann blés varla úr nös með ég másaði og rétt komst úr sporunum.  Á morgun ætla að ég fara svipað að, nema þá skal ég ná að gera þetta þrisvar sinnum. Batnandi fólki er best að lifa, ekki satt?

KV Sóley


Ég fer í fríið!!!!!!!!!

Íha, þá er ég komin í sumarfrí. Bara ýmsir snúningar eftir fyrir Leirufjarðarferðina, og að sjálfsögðu á að labba í dag kl. 13.30. EN það þarf alltaf eitthvað svona skemmtilegt að gerast þegar nóg er af snúningum framundan. Í hádeginu í dag hrundi startarinn í bílnum, hann kominn á verkstæði og er KANNSKI tilbúinn á morgunFootinMouth. Hvað gera danir þá? Það er eftir að komast í víkina í fyrramálið og allt hitt. Eiginmaðurinn varð að láta ýta sér af stað og leggja svo í brekku til að geta skutlað syninum á golfnámskeiðið.

En núna er ég rokin út og farin að labba. Læt heyra frá mér þegar ég kem heim úr Leiró.

Bless í bili, Sóley


4 dagar búnir

Þá er ég búin að arka í 4 daga samfleytt. Hálfnuð með undirbúningsprógrammið. Þetta gengur bara fínt. Gott að fá hjartað aðeins af stað og finna þreytu í lærum og rassi (ekki veitir nú af að tálga aðeins utan af á því svæðiLoL) Samkvæmt planinu á að ganga 20 mín á dag fyrstu 4 dagana. Ég hef nú alltaf farið aðeins fram úr því, og næstu fjóra daga á að ganga í 30 mín á dag. Þá daga verð ég í Leirufirði og mun því arka þar um fjöru og firnindi (ekki svo mikið um fjöll). Það er stefnt á Leiró á föstudagsmorgun og til baka á mánudag. Við förum svo kannski aftur seinna í sumar.

Síðstu tvo daga fékk ég félagsskap á göngunni og er það bara skemmtilegt.

meira seinna

Sóley


Af hverju ísbjörn?

Svo ég útskýri nú af hverju ég valdi að skrifa sem ísbjörn þá var það þannig að í vetur (löngu fyrir heimsóknir ísbirna til landsins) prjónaði ég mér stóra og mikla, ljósgráa lopapeysu. Hún er úr Bulky lopa og prjónuð á prjóna nr. 12 (fyrir þá sem þekkja til). Ég sagði þá að mér liði eins og ísbirni í henni og eftir það er þessi peysa aldrei kölluð annað en ísbjörninn. Mér var ráðlagt að fara varlega þegar ég færi á stjá í þessari peysu svo ég yrði nú ekki skotin á færi.

Eftir að ég ákvað að reyna mig við hlaup/labb/rölt eða hvað verður úr þessu hjá mér, dró ég fram ljósan vindjakka til að labba í og aftur leið mér eins og ísbirni svo það hentar mér bara alveg ágætlega að líkja mér við ísbjörn.

Meira seinna


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband